Fótbolti

Neymar og Messi skoruðu báðir í sigri Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Neymar með syni sína fyrir leikinn, Davi Lucca (Neymar) og Thiago (Messi).
Lionel Messi og Neymar með syni sína fyrir leikinn, Davi Lucca (Neymar) og Thiago (Messi). Nordicphotos/Getty
Barcelona hélt áfram sigurgöngu sinni í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið vann 4-1 heimasigur á Real Sociedad í sjöttu umferð tímabilsins. Barca er með fullt hús og 22 mörk í fyrstu sex leikjum sínum. Neymar skoraði sitt fyrsta deildarmark í kvöld og þetta var ennfremur fyrsti leikur liðsins þar sem hann og Lionel Messi skora báðir.

Barcelona byrjaði af krafti og eftir aðeins átta mínútur var Neymar búinn að skora eftir sendingu Dani Alveg og leggja upp skallamark fyrir Lionel Messi. Sergio Busquets skoraði þriðja markið á 23. mínútu eftir að Messi hafi skömmu áður skotið í bæði slá og stöng.

Yfirburðir Barcelona voru miklir og þeir fóru kæruleysislega með nokkur úrvalsfæri eftir snilldar samleik þar sem Neymar, Andrés Iniesta og Messi voru vanalega í fararbroddi. Messi náði ekki að bæta við mörkum þrátt fyrir ákjósanlega færi en er kominn með sjö mörk í fyrstu sex umferðunum.

Það leit út fyrir að Barcelona ætlaði hreinlega að niðurlægja liðsmenn Real Sociedad en gestirnir gáfust ekki upp og náðu að bjarga aðeins andlitinu með góðum seinni hálfleik.

Alberto De La Bella náði að minnka muninn í 3-1 á 64. mínútu og setja smá spennu í leikinn en Marc Bartra innsiglaði sigurinn á 77. mínútu eftir stoðsendingu frá Lionel Messi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×