Íslenski boltinn

Máni sendi Gaupa með sokkinn sinn til Tómasar Inga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
„Það eru fáar stjörnur í liði Keflvíkinga í Pepsi-deild karla í fótbolta en þar er hinsvegar bara einn Máni," byrjaði Guðjón Guðmundsson frétt sína um Þorkell Mána Pétursson, aðstoðarþjálfara Keflavíkur, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þorkell Máni Pétursson kom til liðs við Keflavíkurliðið fyrir leik á móti FH 20. júlí. Sá leikur tapaðist 0-4 og liðið lá síðan 0-3 á móti KR í leiknum á eftir. Staðan var því slæm og sparkspekingar gáfu Keflvíkingum ekki háa einkunn þegar þeir félagar tóku við en eftirleikinn þekkja allir. Keflavík hefur náð í sextán stig síðan og er nú komið upp í sjöunda sæti deildarinnar.

Guðjón segir að Máni sé með muninn fyrir neðan nefið og bauð síðan upp á einstak viðtal við þennan þekkta útvarpsmann á X-inu.

„Keflavíkurliðið skilaði þremur erlendum leikmönnum í glugganum, fékk til sig einn Norðmann sem talar íslensku plús það að missa aðra tvo Keflvíkinga. Síðan þá er Keflavík í öðru sæti í deildinni. Þetta er nú bara staðreyndin," segir Þorkell Máni Pétursson og bætir við:

„Þetta er mannskapur sem ákveðnir knattspyrnuspekingar eru búnir að segja að sé lélegur mannskapur. Þessi mannskapur er svo langt frá því að vera lélegur. Hann spilar kannski ekki fyrir alla aurana sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu en þeir spila fyrir Keflavíkurhjartað og það er miklu betra að gera það," sagði Þorkell Máni en það var ekki allt búið þá.

Máni stóð þá upp og afhenti Gaupa annan sokkinn sinn með þessum orðum: „Þú getur farið með þennan sokk til Tómasar Inga og sagt honum að troða honum upp í kjaftinn á sér. Hann getur talað næst um Keflavík með þennan sokk upp í kjaftinum á sér," sagði Máni en það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×