Fótbolti

Messi ósáttur við fjölmiðla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Messi í leiknum á Nývangi í gær.
Messi í leiknum á Nývangi í gær. Nordicphotos/Getty
Argentínumaðurinn Lionel Messi hefur brugðist illa við fréttum þess efnis að hafa látið ófriðlega þegar honum var skipt af velli í 4-1 sigrinum á Real Sociedad í gærkvöldi.

Götublaðið AS í Madríd greindi frá því að Messi hefði verið afar ósáttur við að vera tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok. Hefði hann látið óánægju sína í ljós við þjálfarann, landa hans Gerardo Martino.

Messi skrifaði á Fésbókarsíðu sína síðar um kvöldið að það hefði ekki verið hans ætlun að láta neina óánægju í ljós.

„Ég samþykki ekki að ákveðnir fjölmiðlar ljúgi,“ skrifaði Argentínumaðurinn. Messi skoraði eitt marka Barcelona og átti stóran þátt í tveimur til viðbótar.

„Engum finnst gaman að vera skipt af velli en maður verður að sætta sig við það sem er liðinu fyrir bestu,“ skrifaði Messi ennfremur.

Barcelona hefur unnið alla sex leiki sín í deildinni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×