Fótbolti

Þjálfari Barcelona missti föður sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona.
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona. Mynd/AFP
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona, missti föður sinn á dögunum en Argentínumaðurinn verður samt á bekknum þegar Barcelona tekur á móti Ajax í Meistaradeildinni á morgun.

Sandro Rosell, forseti Barcelona, tilkynnti blaðamönnum það í dag en Martino mun stýra leiknum á morgun en í framhaldinu mun hann síðan fljúga heim til Argentínu til að vera með fjölskyldu sinni.

Það er ekki ljóst hversu lengi Martino verður heima í Argentínu og hann gæti því hugsanlega misst af leik Barcelona á móti Rayo Vallecano í spænsku deildinni um næstu helgi.

Martino tók við liði Barcelona í sumar en hann er fimmtugur. Barcelona hefur leikið sex keppnisleiki undir hans stjórn, unnið fjóra og gert tvö jafntefli. Allir fjórir sigrarnir hafa komið í fyrstu fjórum umferðum spænsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×