Fótbolti

Xavi jafnreynslumikill og lið Ajax samanlagt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Xavi Hernandez.
Xavi Hernandez. Nordicphotos/AFP
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax sækja Barcelona heim á Nývang í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Hætt er við því að Ajax muni eiga í vök að verjast í leiknum enda Spánarmeistararnir afar reynslumiklir í keppni þeirra bestu. Leikurinn í kvöld verður sá 144. hjá Xavi, miðjumanni Barcelona, í Meistaradeildinni. Til samanburðar er uppsafnaður fjöldi leikja hjá leikmönnum Ajax í keppninni 143. Tölfræðiveita Barcelona greinir frá þessu.

Barcelona hefur unnið alla fjóra leiki sína í spænsku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð. Ajax hefur hins vegar farið óvenjurólega af stað í hollensku deildinni. Liðið hefur ellefu stig eftir sex leiki og situr í 5. sæti. Þá missti liðið Christian Eriksen til Spurs í félagaskiptaglugganum.

Leikurinn í kvöld verður sögulegur enda hafa liðin tvö aldrei áður mæst í Meistaradeild Evrópu. Leikur liðanna á Nývangi hefst klukkan 18.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport & HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×