Fótbolti

Wenger: Reynsla og þolinmæði skiluðu þessum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theo Walcott og Olivier Giroud fagna marki í kvöld.
Theo Walcott og Olivier Giroud fagna marki í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var ánægður eftir 2-1 útisigur á Marseille í kvöld í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Bæði mörkin komu í seinni hálfleik en Marseille minnkaði muninn úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Það var mjög mikilvægt að þeir skoruðu ekki fyrsta markið. Marseille átti mjög góðan fyrri hálfleik en við vorum heldur ragir. Við náðum að bæta okkar leik í seinni hálfleik og nýttum okkar möguleika. Reynsla og þolinmæði skiluðu þessum sigri," sagði Arsene Wenger við BBC.

„Við vitum að við erum með fullt af leikmönnum innan okkar raða sem geta klárað svona leiki. Ég vissi samt að þetta yrði erfiður leikur því Marseille getur unnið öll lið," sagði Wenger og hann var ánægður með markaskorara sína Theo Walcott og Aaron Ramsey.

„Walcott skoraði líklega úr erfiðasta færinu sem hann hefur fengið á tímabilinu og kannski mun þetta mark hjálpa honum. Markið hans Ramsey var framúrskarandi og það sýndi bullandi sjálfstraust. Hann virðist alltaf skora núna þegar hann kemst í gott færi," sagði Wenger.

„Dómarinn var örlátur að gefa þeim þetta víti. Það er gott að vinna á útivelli en erfitt að bera slíka sigra saman. Vörnin okkar er samt stöðugri og yfirvegaðri en áður. Við getum unnið leiki þegar vörnin er að spila svona vel," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×