Fótbolti

Mourinho um tapið á móti Basel: Ég er ekki neinu sjokki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Basel-menn fagna sigri í kvöld.
Basel-menn fagna sigri í kvöld. Mynd/AFP
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, byrjaði ekki vel í endurkomu sinni í Meistaradeildina með Chelsea-liðinu því hans menn töpuðu 1-2 á heimavelli á móti svissneska liðinu Basel í kvöld.

„Ég er ekki í neinu sjokki. Stundum vinnur þú og stundum tapar þú. Ég er að sjálfsögðu ekki ánægður með þetta tap og við höfum tekið skref til baka í að komast upp úr riðlinum. Við verðum að taka ábyrgð á þessu tapi og við höfum fimm leiki til þess að tryggja okkur tvö efstu sætin," sagði Jose Mourinho við BBC.

„Basel-liðið spilaði mjög vel í þessum leik. Við vorum mikið með boltann en gátum ekki skapað okkur mörg færi. Basel jafnaði metin þegar við vorum að spila best í leiknum. Liðið mitt  er ekki nógu sterkt andlega og náði ekki að vinna sig út úr því mótlæti að lenda undir," sagði Jose Mourinho.

„Ég verð að dreifa álaginu á liðið og nota fleiri leikmenn. Liðið er samt með sama skipulag og leikmennirnir mínir verða að berjast fyrir sæti sínu í liðinu. Það voru ekki einstaklingarnir sem töpuðu þessum leik," sagði Mourinho.

Chelsea komst í 1-0 í lok fyrri hálfleiks en svissneska liðið tryggði sér öll þrjú stigin með því að skora tvö mörk með ellefu mínútna millibili undir lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×