Fótbolti

Fabregas: Arsenal náði í næstbesta leikmann Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil og Cristiano Ronaldo.
Mesut Özil og Cristiano Ronaldo. Mynd/NordicPhotos/Getty
Cesc Fabregas, fyrrum fyrirliði Arsenal og núverandi leikmaður Barcelona, átti ekki von á því að Arsenal tækist að kaupa þýska landsliðsmanninn Mesut Özil frá Real Madrid.

Arsenal hefur aldrei borgað meira fyrir einn leikmann en Mesut Ozil kostaði félagið 42,4 milljónir punda eða rúmlega átta milljarða íslenskra króna.

„Það kom mér mikið á óvart að Özil skyldi fara frá Real," sagði Cesc Fabregas í viðtali við spænsku úrvarpsstöðina Cadena Cope en Cesc Fabregas yfirgaf sjálfur herbúðir Arsenal árið 2011.

„Özil er að mínu mati næstbesti leikmaður Real Madrid á eftir Cristiano (Ronaldo). Hann verður frábær fyrir Arsenal," sagði Fabregas.

Mesut Özil hefur gefið 55 stoðsendingar í 105 deildarleikjum undanfarin þrjú tímabil með spænska liðinu auk þess að skora 19 mörk sjálfur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×