Fótbolti

Hólmfríður hélt upp á nýja samninginn með marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd/Daníel
Fjórar íslenskar knattspyrnukonur voru í byrjunarliði Avaldsnes í dag þegar liðið tapaði 2-3 á útivelli á móti Trondheims Örn í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Kristin Lie tryggði Trondheims Örn öll þrjú stigin með marki á lokamínútunni.

Hólmfríður Magnúsdóttir hafði jafnað metin 17 mínútum fyrir leikslok en Trondheims Örn komst í 2-0 í upphafi seinni hálfleik þegar Mist Edvardsdóttir varði fyrir því óláni að senda boltann í eigið mark.

Diane Caldwell, fyrrum leikmaður Þór/KA, minnkaði muninn í 2-1 á 62. mínútu nýkomin inná sem varamaður og Hólmfríður jafnaði síðan ellefu mínútum síðar.

Miðvörðurinn Kristin Lie var hinsvegar hetja síns liðs þegar hún skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Guðbjörg Gunnarsdóttir var í marki Avaldsnes, Mist Edvardsdottir spilaði í vörninni, Þórunn Helga Jónsdóttir lék á miðjunni og Hólmfríður Magnúsdóttir var í framlínunni. Þær léku allar leikinn nema Þórunn Helga sem var tekin útaf á 73. mínútu eða strax eftir að Hólmfríður skoraði.

Hólmfríður hefur nú skorað 7 mörk í deildinni á tímaiblinu en hún framlengdi einmitt samning sinn við Avaldsnes í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×