Íslenski boltinn

Telma hlóð í þrennu | Rakel með tvö

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Telma Hjaltalín Þrastardóttir.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði þrennu fyrir Aftureldingu í miklum endurkomu sigri gegn FH í Mosfellsbæ í kvöld. Þá skoraði Rakel Hönnudóttir tvívegis fyrir Blika í sigri á Selfossi.

FH komst í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins með mörkum Hugrúnar Elvarsdóttur og Margrétar Sveinsdóttur og útlitið gott. FH hafði sex stiga forskot á Aftureldingu í 7. sæti deildarinnar fyrir leikinn og stefndi í að Mosfellingar yrðu skildir eftir í einangraðri botnbaráttu með Þrótti og HK/Víkingi.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir var á öðru máli. Kantmaðurinn eldfljóti skoraði tvö mörk á fjórum mínútum og mark á lokamínútu hálfleiksins kom Aftureldingu í 3-2.

Í síðari hálfleik bætti Telma við þriðja marki sínu áður en Danielle Sheehy rak síðasta naglann í kistu FH. Nú munar aðeins þremur stigum á liðunum í 7. og 8. sæti deildarinnar.

Rakel Hönnudóttir skoraði tvö mörk á fyrstu nítján mínútum leiksins í heimsókn Blika á Selfossi. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir bætti við þriðja markinu snemma í síðari hálfleik. Valorie O'Brien minnkaði muninn í viðbótartíma.

Blikar eru komnir upp fyrir Val í 2. sæti deildarinnar með sigrinum. Blikar hafa 28 stig en Valur 27. Selfoss er í 5. sæti með 20 stig.

Stöðuna í deildinni má sjá hér.

Upplýsingar um markaskorara hjá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×