Fótbolti

Arsenal í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sextánda árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey fagnar í kvöld.
Aaron Ramsey fagnar í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Strákarnir hans Arsene Wenger í Arsenal áttu ekki í miklum vandræðum með því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Arsenal vann þá 2-0 sigur á tyrkneska liðinu Fenerbahce á Emirates en Lundúnaliðið var með 3-0 forskot frá því í fyrri leiknum.

Þetta er í sextánda árið í röð sem Arsenal verður með í pottinum þegar dregið verður í riðla í Meistaradeildinni en Arsenal hefur verið með allt frá því tímabilið 1997-98 þegar liðið var í UEFA-bikarnum.

Sigur Arsenal-manna var öruggur en þeir fara áfram 5-0 samanlagt. Velski landsliðsmaðurinn Aaron Ramsey skoraði bæði mörk liðsins í kvöld en hann er heldur betur að springa út á þessu tímabili.

Aaron Ramsey kom Arsenal í 1-0 á 25. mínútu þegar boltinn barst til hans eftir samspil Theo Walcott og Lukas Podolski í teignum. Það tók því ekki Arsenal-menn langan tíma að eyða lítilli von gestanna frá Tyrklandi.

Theo Walcott átti meðal annars skot í slá úr aukaspyrnu í seinni hálfleiknum en Aaron Ramsey bætti síðan við öðru marki á 72. mínútu með frábæru skoti eftir fyrirgjöf frá Kieran Gibbs. Ramsey skoraði þar með 3 mörk í þessum tveimur leikjum á móti tyrkneska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×