Íslenski boltinn

Harpa: Þetta er mitt besta tímabil

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir fagnar í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir fagnar í kvöld. Mynd/Daníel
Harpa Þorsteinsdóttir hefur átt ótrúlegt tímabil með Stjörnunni og er að flestra, ef ekki allra, besti leikmaður tímabilsins. Hún brosti breitt eftir að Íslandsmeistaratitillinn var kominn í hús eftir 4-0 sigur á Val í Pepsi-deildinni í kvöld.

"Ég er svo ánægð að það er erfitt að lýsa því. Ég var aðeins búin að spá í að þessi staða gæti komið upp. Ég var að vonast eftir þessu og það er ánægjulegt að hafa landað þessu núna," sagði Harpa skælbrosandi.

Hún var þó nokkuð þreytt enda fór Pála Marie Einarsdóttir, varnarmaður Vals, ansi harkalega með hana í kvöld og braut gróflega á henni.

"Það er langt síðan ég spilaði leik svona lemstruð. Hún tæklaði mig nokkrum sinnum harkalega en maður verður að standa það af sér. Þetta var prófraun," sagði Harpa en er eitthvað illt á mili þeirra?

"Nei, alls ekki. Ég held að minnsta kosti ekki. Hún sendir mér bara bréf ef hún er eitthvað ósátt við mig," sagði Harpa og hló.

"Þetta er frábært lið. Frábærir leikmenn og góð blanda af yngri og reyndari leikmönnum. Við höfum samt spilað flestar lengi saman og þekkjum hvor aðra mjög vel."

Eins og áður segir hefur Harpa farið á kostum í sumar. Er þetta hennar besta tímabil á ferlinum?

"Já, ég held að þetta sé mitt besta tímabil. Það eru forréttindi að vera framherji í svona liði. Allt liðið er að spila mjög vel og ég græði á því," sagði Harpa hógvær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×