Íslenski boltinn

Tæklingar Pálu Marie og glæsimörk Stjörnunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjarnan tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu með 4-0 sigri á Val í Garðabæ. Dómgæslan í leiknum vakti athygli.

Stjarnan skoraði tvö mörk, hvort í sínum hálfleiknum og vann afar sannfærandi sigur. Rúna Sif Stefánsdóttir, Danka Podovac, Harpa Þorsteinsdóttir og Írunn Þorbjörg Aradóttir skoruðu mörkin.

Stjörnukonur voru allt annað en sáttar með frammistöðu Gunnars Sverris Gunnarssonar í leiknum. Beindist óánægjan að þremur tæklingum Pálu Marie Einarsdóttur, miðvarðar Valskvenna.

Harpa Þorsteinsdóttir fékk í tvígang að finna fyrir því eftir tæklingar Pálu en versta brotið kom um miðjan síðari hálfleik þegar brotið var á Önnu Maríu Baldursdóttur.

Í engu tilfellanna þriggja var dæmd aukaspyrna og sýnist vafalítið sitt hverjum. Óhætt er að fullyrða að einhverjir dómarar hefðu veitt Pálu áminningu í hverju tilfelli.

Í spilaranum hér að ofan má sjá mörkin úr leiknum og tæklingar Pálu Marie. Brotin eiga sér stað eftir 36 sekúndur, 2:38 mínútur og sú þriðja strax í kjölfarið. Helena Ólafsdóttir, þjálfari Vals, skipti Pálu Marie út af skömmu síðar.

Þá fékk Madison Vandire, bandarískur leikmaður Vals, dæmda á sig vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Reif hún þá Hörpu Þorsteinsdóttur niður innan teigs en augljósari vítaspyrna verður varla dæmd í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×