Fótbolti

Sparkað út úr Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Metalist Kharkiv stilla sér upp.
Leikmenn Metalist Kharkiv stilla sér upp. Mynd/AFP
Úkraínska félagið Metalist Kharkiv fær ekki að taka þátt í næstu umferð í Meistaradeild UEFA. Evrópska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að útiloka liðið frá keppni sökum þess að menn á vegum félagsins tóku þátt í hagræðingu úrslita í heimalandinu.

Metalist Kharkiv var búið að vinna sér keppnisrétt í umspili um sæti Meistaradeildinni eftir að liðið sló út gríska liðið PAOK í sömu umferð og FH datt út fyrir Austria Vín.

Metalist átti að mæta þýska liðinu Schalke á miðvikudaginn kemur en UEFA þarf nú að ákveða hvort PAOK fái annan möguleika eða að Schalke fljúgi bara inn í riðlakeppnina án keppni.

Metalist Kharkiv mun örugglega áfrýja þessum dómi til Alþjóðlega íþróttadómstólsins en UEFA tók mál Metalist fyrir eftir að dómstólinn staðfesti fimm ára dóm yfir íþróttastjóranum Yevhen Krasnikov.

Umræddur leikur þar sem úrslitunum var hagrætt fór fram árið 2008 á milli FC Metalist og FC Karpaty. Einn leikmaður Metalist fékk líka fimm ára bann og fimm aðrir leikmenn félagsins fengu þriggja ára bann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×