Fótbolti

Veikindi Neymar eru slæmri meðferð Barcelona að kenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Mynd/AFP
Luiz Felipe Scolari, þjálfari brasilíska landsliðsins, er allt annað en ánægður með þá meðferð sem stjörnuleikmaður hans Neymar hefur fengið hjá spænska liðinu Barcelona.

Neymar greindist með blóðleysi fyrr í þessum mánuði en Scolari lét Börsunga heyra það á blaðamannafundi, bæði fyrir að pressa á það að leikmaðurinn færi í kirtlatöku fyrir tímabilið sem og hvernig meðferð hann fékk hjá félaginu eftir þessa aðgerð.

„Það óásættanlegt að Neymar glími nú við blóðleysi," sagði Luiz Felipe Scolari á blaðamannafundi.

„Hann var með Barcelona fyrir Álfubikarinn og þá var allt í lagi með hann. Það fer ekkert á milli mála að hann er allt annar í dag enda búinn að fara í þessa aðgerð," sagði Scolari.

„Það lítur út fyrir að Barcelona menn haldi að þeir viti allt og að þeir hafi alltaf rétt fyrir sér. Það var alltaf ljóst að Neymar myndi grennast eftir aðgerðina," sagði Scolari og kennir Börsungum algjörlega um þessi veikindi Neymar.

Barcelona keypti Neymar á 57 milljónir evra frá Santos fyrr í sumar en hann hefur misst í kringum sjö kíló eftir aðgerðina og ekki var hann nú mikill um sig fyrir hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×