Sport

Bondarenko náði ekki heimsmetinu en tók gullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bohdan Bondarenko fagnar sigri.
Bohdan Bondarenko fagnar sigri. Mynd/AFP
Úkraínumaðurinn Bohdan Bondarenko er heimsmeistari í hástökki karla eftir skemmtileg keppni á HM í Moskvu í kvöld. Bondarenko fór einn yfir 2,41 metra en hann gerði þrjár tilraunir við nýtt heimsmet (2,46 metra) en felldi í öll skiptin.

Bohdan Bondarenko tók talsverða áhættu í úrslitunum með því að sleppa mörgum hæðum en hann var aðeins búinn að stökkva tvisvar sinnum þegar hæðin var komin upp í 2,41 metra.

Bondarenko felldi síðan í fyrstu tilraun sinni við 2,41 metra og það leit út fyrir að hann hefði tekið of mikla áhættu. Hann flaug hinsvegar yfir í annarri tilraun og tryggði sér sigur.

Mutaz Essa Barshim fékk silfrið og Kanadamaðurinn Derek Drouin tók bronsið. Barshim og Drouin fóru báðir hæst yfir 2,38 metra en Kanadamaðurinn setti með því landsmet.

Bohdan Bondarenko er 23 ára gamall og þetta er fyrsti heimsmeistaratitill hans en hann varð í sjöunda sæti á Ólympíuleikunum í London fyrir ári síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×