Fótbolti

Isco tryggði Real Madrid þrjú stig í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Real Madrid vann 2-1 endurkomusigur á Real Betis á Estadio Santiago Bernabéu í kvöld í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar. Það var ungstirnið Isco sem skoraði sigurmarkið en Real Madrid keypti þennan 21 árs gamla strák frá Málaga í sumar. Isco lagði einnig upp fyrra mark Real Madrid.

Jorge Molina kom Real Betis í 1-0 á 11. mínútu leiksins en Karim Benzema jafnaði metin á 26. mínútu eftir stoðsendingu frá Isco. Isco spilaði á þriggja manna miðju með þeim Luka Modrić og Sami Khedira.

Isco skoraði sigurmarkið síðan fjórum mínútum fyrir leikslok eftir stoðsendingu frá Marcelo.

Real Madrid er þrátt fyrir sigurinn strax farið að elta Barcelona því Börsungar unnu 7-0 stórsigur á Levante fyrr í kvöld.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×