Fótbolti

Neymar: Ég og Messi erum góðir vinir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Argentínumaðurinn Lionel Messi og Brasilíumaðurinn Neymar.
Argentínumaðurinn Lionel Messi og Brasilíumaðurinn Neymar. Mynd/NordicPhotos/Getty
Það ríkir mikil eftirvænting í Barcelona fyrir komandi tímabili enda teflir liðið nú fram í fremstu víglínu tveimur af mest spennandi knattspyrnumönnum heimsins. Þetta eru Argentínumaðurinn Lionel Messi og Brasilíumaðurinn Neymar en hinn síðarnefnda keyptu Börsungar á 57 milljónir evra frá Santos í sumar.

Knattspyrnuspekingar velta sér hinsvegar mikið upp úr því hvort að þeir geti hreinlega spilað saman inn á vellinum og hvort egóin geti blómstrað hlið við hlið. Neymar hefur engar áhyggjur af þessu.

„Það er frábært samband milli mín og Messi. Ég og Messi erum góðir vinir. Ég tala við hann á hverjum degi. Messi er besti fótboltamaðurinn í heimi og ég ber mikla virðingu fyrir honum," sagði Neymar við blaðamenn á Spáni.

„Ég er alltaf ánægðastur ef ég næ að hjálpa mínu liði. Auðvitað eru miklar væntingar gerðar til mín og ég mun reyna eins vel og ég get að standa undir þeim," sagði Neymar.

„Ég er að reyna að komast inn í leik liðsins eins fljótt að ég get. Barcelona spilar fallegasta fótboltann í heimi og ég reyni mitt besta að aðlagast leik liðsins sem fyrst," sagði Neymar.

Neymar fær væntanlega sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliði Barcelona þegar liðið mætir Santos annað kvöld í Joan Gampher bikarnum sem er árlegur leikur á Camp Nou á undirbúningstímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×