Fótbolti

Toppaði Róbert Örn | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Skjáskot
Austurríski markvörðurinn Hannes Leo skoraði mark af 80 metra færi í austurríska bikarnum um helgina.

Keppni í austurríska bikarnum er hafin og eru minni liðin byrjuð að leika á fyrstu stigum keppninnar. USK Piesendorf leiddi 3-2 gegn Berndorft þegar komið var á fimmtu mínútu viðbótartíma.

Gestirnir sendu alla sína menn fram, þar á meðal markvörðinn, þegar liðið fékk aukaspyrnu rétt utan teigs. Spyrnan var ekki betri en svo að Leo greip boltann auðveldlega.

Markvörðurinn var ekki að flækja hlutina. Hann leit upp og spyrnti boltanum þéttingsfast yfir völlinn og í netinu hafnaði boltinn. Staðan orðin 4-2 og úrslitin ráðin.

Róbert Örn Óskarsson, markvörður FH, lék svipaðan leik við samskonar aðstæður á dögunum í 2-1 sigri Hafnfirðinga á Ekranas í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Þá lét hann reyndar stoðsendingu nægja en Atli Viðar Björnsson ýtti boltanum yfir línuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×