Íslenski boltinn

Finnur Orri: Hlustaði ekki á þá sem sögðu að ég gæti ekki skorað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Orri Margeirsson.
Finnur Orri Margeirsson. Mynd/Arnþór
Finnur Orri Margeirsson skoraði langþráð mark í 1-0 sigri Blika á Akotbe í leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær en það dugði ekki til því Blikar féllu út í vítakeppni.

„Eigum við ekki að segja að það hafi verið ákveðinn léttir að ná loksins að skora. Þetta var orðið tímabært og ágætis leikur til þess að brjóta ísinn," segir Finnur Orri í samtali við Vísi en það mátti heyra að kappinn var eins og félagar hans í Breiðabliki enn að jafna sig eftir sárgrætilegt úrslit í Laugardalnum í gær.

Finnur Orri var búinn leika 139 keppnisleiki með Blikum án þess að ná að skora (110 deildarleikir, 18 bikarleikir og 11 Evrópuleikir)

„Það var skelfilegt að þetta skyldi ekki duga og það skyggir mikið á þetta mark. Það skiptir meira máli að komast áfram en hver skorar þessi mörk. Við vorum alveg grátlega nálægt því," sagði Finnur Orri.

„Það voru nokkrir farnir að gauka því að mér að ég gæti hreinlega ekki skorað. Ef maður hlustar á alla þá yrði maður fljótt bilaður," segir Finnur í léttum tón og hann er bjartsýnn á framhaldið hjá Breiðabliki í Pepsi-deildinni.

„Það verður fínt að taka deildina með trompi það sem eftir er. Evrópukeppnin gefur okkur mikla vitneskju um það hversu vel við getum spilað. Það er sú frammistaða sem við þurfum að miða við," segir Finnur Orri að lokum.

Hægt er að sjá umfjöllun um mark Finns Orra í frétt sem birtist á Vísi fyrr í dag en það er tengill á þá frétt hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Langþráð mark Finns Orra dugði ekki til | Myndband

Blikar féllu úr leik í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöld þrátt fyrir 1-0 sigur á Aktobe frá Kasakstan. Úrslitin réðust í dramatískri vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×