Fótbolti

Heynckes tekur ekki við Barcelona

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jupp Heynckes
Jupp Heynckes Mynd/Gettyimages
Jupp Heynckes mun ekki taka við Barcelona að eigin sögn. Hann hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna eftir afsögn Tito Vilanova en hann var fljótur að taka sig úr myndinni.

Sameiginleg ákvörðun Vilanova og Barcelona var tilkynnt á föstudaginn, vegna veikinda þarf Tito að stíga frá og einbeita sér að heilsunni. Tito stýrði Barcelona í eitt ár eftir að hafa tekið við af Pep Guardiola og vann spænsku deildina með miklu öryggi.

Fyrrverandi Barcelona leikmaðurinn Luis Enrique og Gerardo Martino, fyrrverandi þjálfari Paragvæ eru taldnir líklegastir til að taka við spænska stórliðinu en einnig voru nöfn Heynckes og Villas-Boas nefnd til sögunnar.

„Ég held mér uppteknum með áhugamálum og íþróttum, ég á nokkur dýr sem þarf að sjá um ásamt risa garði. Ég held að það sé ómögulegt að fara beint aftur í þjálfun eftir síðasta ár hjá Bayern. Líkami minn hefur verið að gefa mér merki um að hvíla mig og ég reyni að njóta þess," sagði Heynckes.

Villas-Boas hefur einnig neitað áhuga á starfinu og talið er að valið standi á milli Enrique og Martino. Þrátt fyrir að Luis Enrique hafi tekið við Celta Vigo fyrir tæplega mánuði er talið að hann sé opinn fyrir hugmyndinni að stýra Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×