Fótbolti

Barcelona staðfestir ráðningu Martino

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martino stýrir hér landsliði Paragvæ á HM 2010.
Martino stýrir hér landsliði Paragvæ á HM 2010. Nordic Photos / AFP
Argentínumaðurinn Gerardo Martino verður næsti þjálfari Barcelona en félagið staðfesti í morgun að hann hefði skrifað undir tveggja ára samning.

Martino er 50 ára gamall og tekur við af Tito Vilanova sem hætti í síðustu viku vegna veikinda. Vilanova er 44 ára gamall en þarf að fara í langa krabbameinsmeðferð.

Martino stýrði síðast Newell's Old Boys í heimalandinu en hann er einnig leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 505 leiki. Hann lék á sínum tíma einn leik með argentínska landsliðinu og spilaði einnig með liðum á Spáni, Ekvador og Síle.

Hann hóf þjálfaraferil sinn í neðri deildum Argentínu en náði svo góðum árangri með félagslið í Paragvæ. Þar tók hann við landsliðinu árið 2006 og kom liðinu í fjórðungsúrslit HM 2010 þar sem liðið tapaði fyrir Spáni, 1-0.

Martino tók við Newell's Old Boys í fyrra og gerði liðið að meisturum á sínu fyrsta tímabili.

Lionel Messi, stjörnuleikmaður Barcelona, hefur áður talað vel um Martino en þeir koma báðir frá sama héraði í Argentínu. „Mér líkar vel við Tata Martino. Hann er frábær þjálfari sem lætur lið sín spila góðan fótbolta. Við berum allir virðingu fyrir honum,“ sagði Messi í blaðaviðtalið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×