Viðskipti innlent

Vigdís Hauks segir Standard & Poor's með inngrip í innanríkismál

Heimir Már Pétursson skrifar
Vigdís Hauksdóttir telur aðfinnslur Standard & Poors vera inngrip í innanríkismál Íslendinga.
Vigdís Hauksdóttir telur aðfinnslur Standard & Poors vera inngrip í innanríkismál Íslendinga.
Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis segir breytingar Standard og Poor's á lánshæfishorfum ríkissjóðs vera inngrip í innanríkismál Íslendinga. Stjórnvöld muni ekki beygja sig fyrir slíkum afskiptum sem sett séu fram til að hafa áhrif á uppgjör gömlu bankanna við erlenda kröfuhafa í tengslum við aðgerðir vegna skulda heimilanna. En Standard & Poors breytti lánshæfishorfum ríkissjóðs í dag úr stöðugum í neikvæðar, þar sem fyrirtækið telur að lækkun verðtryggðra skulda heimilanna eins og ríkisstjórnin boði muni auka skuldir ríkissjóðs og tefja afnám gjaldeyrishafta.

„Ég tel þetta vera inngrip í innanríkismál Íslendinga. Þetta er ákveðin hótun sem felst í þessu. En skuldaleiðréttingarleið Framsóknarflokksins er alveg skýr. Þetta á ekki að lenda á ríkissjóði heldur koma úr nauðasamningum við föllnu bankana,“ segir Vigdís.

Vigdís segir Standard & Poor's augljóslega leggjast á sveif með erlendum kröfuhöfum í kröfum þeirra á þrotabú föllnu bankanna með þessari aðgerð sinni, sem óttist að fá kröfur sínar ekki greiddar að fullu. Hún óttist því ekki að þær forsendur sem Standard & Poors gefi sér um að ríkissjóður taki á sig stórar skuldir af einkaaðilum við þessar aðgerðir fyrir heimilin.

„Nei, það virðast allar klær vera úti til að ná sem mestu út úr þessum þrotabúum og þetta er bara afleiðing af því,  nú þegar þetta matsfyrirtæki leggst á sveif með erlendu kröfuhöfunum. Það er bara alveg klárt. Það er greinilega mikill ótti í gangi gagnvart þessari leið hjá kröfuhöfunum. Það er staðan en við látum ekki beygja okkur undir það,“ segir formaður fjárlaganefndar Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×