Fótbolti

Helgi Valur spilar fjóra leiki til viðbótar með AIK

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Valur Daníelsson fagnar marki með AIK.
Helgi Valur Daníelsson fagnar marki með AIK. Mynd/NordicPhotos/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson mun spila með portúgalska félaginu CF Os Belenenses á komandi leiktíð en hann stóðst læknisskoðun hjá félaginu í dag. Helgi Valur flytur þó ekki út fyrr en eftir leik AIK-liðsins á móti BK Hacken sem fer fram 22. júlí og á því eftir að spila fjóra leiki með sænska félaginu. Þetta kemur fram á heimasíðu AIK í dag.

Samningur Helga Vals við AIK rennur út í lok ársins en það var fyrir löngu ljóst að hann fengi ekki nýjan samning hjá sænska liðinu. Hann gerir tveggja ára samning við portúgalska liðið.

„Það eru þrjár aðalástæður fyrir að við seljum Helga til Portúgals. Í fyrsta lagi vildi Belenenses fá Helga Val, í öðru lagi hjálpar þetta félaginu fjárhagslega og í þriðja lagi þá skapar þetta tækifæri fyrir unga framtíðarleikmenn að stimpla sig inn í liðið," sagði Bjorn Wesström, íþróttastjóri AIk.

„Helgi Daníelsson hefur uppfyllt allar væntingar okkar til hans og gott betur. Hann er vinnusamur, mikill fagmaður og hefur hjálpað félaginu að ná stöðugleika á tíma þegar AIK þurfti svo sannarlega á því að halda. Nú á Helgi eftir að spila fjóra leiki fyrir okkur en við óskum honum alls hins besta hjá nýju félagi," sagði Wesström.

Helgi Valur er 31 árs gamall og eftir að hafa hafið ferilinn með Fylki þá hefur hann spilað í Englandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Hann gerði þriggja og hálfs árs samning við AIK í júní 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×