Fótbolti

Messi sver fyrir skattsvik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Nordicphotos/AFP

Spænsk skattayfirvöld hafa Argentínumanninn Lionel Messi undir smásjá sinni. Messi er grunaður um að hafa svikið um fjórar milljónir evra, andvirði 640 milljónum íslenskra króna, undan skatti.

Messi hefur þegar neitað sök og segir fréttirnar koma sér í opna skjöldu. Árstekjur Messi hjá Barcelona eru taldar nema um 16 milljónum evra á ári og því er umrædd upphæð minniháttar miðað við tekjur Messi. Þá fær hann einnig himinháar tekjur fyrir að leika í auglýsingum og tengja nafn sitt við vörur.

Messi og faðir hans, Jorge Horacio, eru sakaðir um að hafa greint ranglega frá upplýsingum á skattskýrslu Messi á árunum 2007-2009 að því er skattayfirvöld á Spáni greina frá. Talið er að Messi og faðir hans hafi komist hjá því að greiða fyrrnefnda upphæð í skatt á Spáni, þar sem Messi býr, með því að notast við fyrirtæki í Belís og Úrúgvæ.

Ef Messi verður sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér sex ára fangelsisvist og háa sekt. Messi svaraði ásökununum á Facebook-síðu sinni í dag.

„Við höfum aldrei brotið af okkur. Við höfum ávalt staðið í skilum við skattayfirvöld eftir að hafa ráðfært okkur við endurskoðendur okkar. Þeir munu útskýra þetta nánar."

Knattspyrnufélagið Barcelona hefur ekki tjáð sig um málið að svo stöddu. Talið er að skattrannsóknina megi rekja til stefnu yfirvalda á Spáni að stemma stigu við skattsvikum í kjölfar efnahagshrunsins.

Nánar á fréttavef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×