Fótbolti

Abidal felldi tár og kvaddi Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eric Abidal átti erfitt með sig á blaðamannafundinum í Barcelona í dag.
Eric Abidal átti erfitt með sig á blaðamannafundinum í Barcelona í dag. Nordicphotos/AFP

Franski varnarmaðurinn Eric Abidal er í leit að nýju félagsliði. Barcelona mun ekki endurnýja samning sinn við Abidal.

Abidal, sem verið hefur á mála hjá Barcelona undanfarin sex tímabil, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að hann væri á leið burtu frá félaginu.

„Fótbolti hefur verið ástríða mín síðan ég var barn. Ég sé ekki fyrir mér að ég leggi skóna á hilluna. Ég hef lagt hart að mér að komast aftur á ferðina eftir veikindin. Heilsa mín er betri nú. En þegar líkaminn segir stopp þá hlýði ég," sagði Abidal.

Frakkinn hefur átt í miklum vandræðum með lifur sína undanfarin ár. Fyrst gekkst hann undir aðgerð vegna æxlis í lifur árið 2011 og var aftur frá keppni í vetur vegna lifrarígræðslu.

„Ég hefði kosið að vera áfram hjá Barcelona en félagið er ekki á sama máli. Ég virði skoðun þess," sagði Abidal.

Sandro Rosell, forseti Barcelona, segir að Abidal sé velkominn í þjálfarateymi félagsins þegar hann leggur skóna á hilluna.

Eric Abidal faðmar Lionel Messi að sér að blaðamannafundinum loknum.Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×