Fótbolti

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram í Berlín 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Meistaradeildarbikarinn.
Meistaradeildarbikarinn. Mynd/AFP

Framkvæmdanefnd UEFA tilkynnti það í dag að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar eftir tvö ár muni fara fram á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar sama ár fer fram í Varsjá í Póllandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem úrslitaleikur Meistaradeildarinnar verður í Berlín en Þjóðverjar héldu leikinn síðast í fyrra þegar spilað var á Allianz Arena í München. Það hefur verið keppt í Meistaradeildinni frá 1992 en áður hét keppnin Evrópukeppni Meistaraliða.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á næsta ári fer fram á Estádio da Luz í Lissabon í Portúgal en um helgina munu þýsku liðin Bayern München og Borussia Dortmund mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley í London.

Framkvæmdanefnd UEFA gaf einnig út skýr fyrirmæli til aðildarlanda sinna um refsingar vegna kynþáttafordóma inn á vellinum. Verði leikmaður dæmdur sekur í slíku máli fer hann í það minnsta tíu leikja bann.

Úrslitaleikir Meistaradeildarinnar í Þýskalandi:

2015: Olympiastadion í Berlín

2012: Allianz Arena í München (Chelsea vann Bayern München í vítakeppni)

2004: Arena AufSchalke í Gelsenkirchen (Porto vann Monaco 3-0)

1997: Olympiastadion í München (Borussia Dortmund vann Juventus 3-1)

1993: Olympiastadion í München (Marseille vann AC Milan 1-0)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×