Fótbolti

Skellur hjá Íslendingaliðinu Hönefoss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson.
Kristján Örn Sigurðsson. Mynd/NordicPhotos/Getty

Kristján Örn Sigurðsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og félagar í Hönefoss töpuðu 0-4 á móti Ole Gunnar Solskjær og lærisveinum hans í Molde í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hönefoss var búið að ná í fjögur stig í síðustu tveimur leikjum og hélt hreinu í báðum leikjum. Molde hefur orðið norskur meistari undanfarin tvö ár en var bara búið að vinna einn leik í fyrstu ellefu umferðunum.

Kristján Örn Sigurðsson spilaði allan leikinn í miðri vörninni og Arnór Sveinn Aðalsteinsson kom inn á varamaður á 29. mínútu þegar staðan var 1-0 fyrir Molde.

Molde gerði endanlega út um leikinn með því að skora þrjú mörk með níu mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks.

Hönefoss er í 10. sæti deildarinnar og enn fjórum sætum og þremur stigum á undan Molde-liðinu. Molde kom sér af botninum með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×