Innlent

Kaupþingsmenn mættir fyrir dóm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaupþingsmenn aftur fyrir dómi. Lengst til vinstri á myndinni eru Hreiðar Már Sigurðsoon, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Hörður Felix Harðarson verjandi hans.
Kaupþingsmenn aftur fyrir dómi. Lengst til vinstri á myndinni eru Hreiðar Már Sigurðsoon, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Hörður Felix Harðarson verjandi hans. Mynd/ GVA.
Ákæra yfir níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings banka var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Mennirnir eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í aðdraganda að bankahruninu. Í umfjöllun Fréttablaðsins, þegar ákærurnar voru gefnar út, í mars kom fram að um væri að ræða eitt stærsta mál sinnar tegundar en um er að ræða alls fimm mál sem sameinuð voru í eina ákæru.

Þetta er annað málið gegn fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings sem er fyrir dómi. Eins og kunnugt er átti aðalmeðferð í svokölluðu al-Thani máli að fara fram fyrr í apríl en var frestað eftir að verjendur tveggja sakborninga báðust lausnar undan málinu.

Saksóknari krafðist þess að Gestur Jónsson verði ekki skipaður verjandi Sigurðar Einarssonar. Ástæðan er sú að það voru Gestur og Ragnar H. Hall sem sögðu sig frá al-Thani málinu með þeim afleiðingum að það þurfti að fresta því.

Ákæra á hendur sex starfsmönnum Landsbankans verður einnig þingfest í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×