Innlent

Jóhönnu finnst ekki eins og hún sé að skilja við flokkinn í rúst

Karen Kjartansdóttir skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafnar því að hún skilji Samfylkinguna eftir í rúst þótt fylgi flokksins í skoðanakönnunum mælist langt undir því sem flokkurinn hefur haft í gegnum tíðina. Hún hélt sína síðustu kosningaræðu í dag eftir 35 ára feril í stjórnmálum.

Það var bókstaflega troðfullt út úr húsi í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar á Laugavegi í dag. Samfylkingin mælist þó með rétt rúmlega 13 prósent í könnunum og stefnir í einn mesta kosningaósigur í sögu íslenskra stjórnmála. Ræðumenn sem tóku til máls voru þó sammála um að flokkurinn ætti skilið meira fylgi.

Sérstaklega var talað háðuglega um það sem var kallað töfrabrögð framsóknar. En stoltast var fólk af umbótum í mannréttindamálum.

Aðspurð hvort Jóhönnu finnist hún vera að skilja við flokkinn í rúst, svarar hún einfaldlega nei. „Mér finnst það ekki, vegna þess að ég hef trú á því að það komi meira upp úr kössunum,“ segir Jóhanna. „Samfylkingin hefur gert ótrúlega hluti í efnahagsmálum og endurreist Ísland frá gjaldþroti. Og ætti auðvitað að fá meira en skoðanakannanir sýna,“ bætti Jóhanna við. Hægt er að horfa á allt viðtalið við hana hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×