Innlent

Íslendingurinn í Paragvæ ófundinn - lögreglan verst allra fregna

VG skrifar

Lögreglan verst allra frétta varðandi mann sem lýst var eftir í Paragvæ af Interpol og fréttastofa RÚV greindi frá í gær. Vísir hafði samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra vegna málsins sem aftur benti á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Þar verjast menn frétta og bentu raunar aftur á alþjóðadeildina.



Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að ekki væri hægt að gefa neinar upplýsingar um málið að svo stöddu þegar hann var spurður hvort það væri búið að hafa uppi á manninum - sem ekki hefur verið nafngreindur.



Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri hefur verið í Suður-Ameríku í nokkurn tíma, en ekkert hefur spurst til hans undanfarnar vikur. Þess vegna var ákveðið að lýsa eftir honum samkvæmt RÚV.



Samkvæmt heimildum Vísis þá er mögulegt að ekki sé aðeins verið að leita að einum Íslendingi, heldur tveimur. Stefán vildi ekkert tjá sig um það þegar hann var spurður út í það. Þá segja heimildir ennfremur að maðurinn hafi farið frá Brasilíu, þar sem félagi hans varð eftir af einhverjum ástæðum, yfir til Paragvæ.



Interpol aðstoðar lögregluna við leitina að manninum en engar upplýsingar eru að finna á heimasíðu stofnunarinnar varðandi einstaklinga sem lýst er eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×