Innlent

Bjarni segir botninum náð

„Nú er botninum náð," segir Bjarni Benediktsson í tölvupósti til flokksbundinna sjálfstæðismanna í dag. Hann segir að Þjóðarpúls Gallup í gær hafi valdið sjálfstæðismönnum vonbrigðum. Sú staða að mælast fjórum vikum fyrir kosningar með 22,4% fylgi sé eitthvað sem sjálfstæðismenn hafi talið óhugsandi fyrir fjórum vikum.

„Síðan höfum við horft á fylgið fara niður á við, en nú er botninum náð. Við þurfum að ákveða það, hvert með sjálfu sér, að héðan í frá liggi leiðin upp á við. Við höfum allt sem þarf. Við eigum glæsilega frambjóðendur, trausta stefnu og öflugt fólk um allt land sem vill vinna að kosningabaráttunni með okkur," segir Bjarni.

Bjarni segir að vinnuna framundan verði að vinna maður á mann.

„Við þurfum að ná aftur heim okkar fólki sem nú gefur sig upp á önnur framboð. Það er útilokað að hugsa sér Sjálfstæðisflokkinn utan ríkisstjórnar í tvö kjörtímabil. Ísland þarf á traustri stjórn og skilningi á þörfum fólks og fyrirtækja í landinu að halda. Sá skilningur verður að grundvallast á sjálfstæðisstefnunni, á athafnafrelsi, einkaframtaki og því að fólk njóti ávaxta vinnu sinnar," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×