Innlent

Eygló Harðardóttir: Margir sem taka undir forgangsröðun okkar

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.
„Við höfum auðvitað fundið fyrir miklum meðbyr," segir Eygló Harðardóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, um gott gengi flokksins í skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins og birtist í blaðinu í dag.

Þar kom í ljós að Framsóknarflokkurinn er stærsta stjórnmálaafl landsins en 40 prósent aðspurðra sögðust ætla að styðja flokkinn. Þetta er sögulega hátt fylgi flokksins, en hann hefur ekki mælst svo hátt í skoðanakönnunum í áratugi.

„Það eru greinilega margir sem eru að taka undir þessa forgangsröðun okkar," segir Eygló og á þá við að flokkurinn hefur sett skuldamál heimilanna á oddinn.

Hún segir nú forgangsatriði að vinna að hag heimilanna, og að taka á snjóhengjunni alræmdu, „þetta er forsenda þess að það verði gott að búa á Íslandi."

Það er ljóst, fari kosningar eins og kannanir benda til, að það muni bætast verulega við þingmannafjölda Framsóknarflokksins. Á framboðsliðstum má finna margt ungt og óreynt fólk. Spurð hvot flokkurinn hafi áhyggjur af þessu svarar Eygló:

„Við höfum góða reynslu af ungum þingmönnum Framsóknarflokksins, samanber Birki Jón Jónsson, sem kom mjög ungur inn á þing, og svo Ásmund Einar Daðason."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×