Fótbolti

Pedro með tíu landsliðsmörk á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro Rodriguez.
Pedro Rodriguez. Mynd/AFP
Pedro Rodriguez, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, er markahæsti landsliðsmaðurinn á tímabilinu 2012-13 en þessi 25 ára leikmaður tryggði Spánverjum mikilvægan 1-0 sigur á Frökkum í gær með sínu tíunda landsliðsmarki á tímabilinu.

Pedro hefur skorað þessi tíu mörk í aðeins átta leikjum og er með tveimur landsliðsmörkum meira en næsti maður á listanum sem er Brasilíumaðurinn Neymar. Zlatan Ibrahimovic er í 3. sæti með sex mörk fyrir Svía og Lionel Messi (Argentína) og Didier Drigba (Fílabeinsströndin) hafa báðir skorað fimm mörk.

Það stefnir í sögulegan landsliðsvetur hjá Pedro Rodriguez því hann er nú aðeins fjórum mörkum frá því að jafn met þeirra Gerd Müller (Þýskaland 1971-72), Ronaldo (Brasilía 1996-97) og Patrick Kluivert (Holland 1999-2000) sem náðu allir að skora fjórtán landsliðsmörk á einu tímabili.

David Villa á spænska metið en hann skoraði þrettán landsliðsmörk í fjórtán landsleikjum tímabilið 2008 til 09. Villa skoraði síðan 11 mörk í 15 landsleikjum tímabilið eftir.

Pedro Rodriguez fær nóg af leikjum til þess að skora fleiri mörk því spænska landsliðið spilar tvo vináttuleiki fyrir Álfubikarinn þar sem liðið spilar í það minnsta þrjá leiki þar af einn þeirra á móti Tahítí.



Landsliðsmörk Pedro 2012-2013

5-0 sigur á Sádí-Aarbíu (7. september 2012) - 2 mörk

4-0 sigur á Hvíta-Rússlandi (12. október 2012) - 3 mörk

5-1 sigur á Panama (14. nóvember 2012) - 2 mörk

3-1 sigur á Úrúgvæ (6. febrúar 2013) - 2 mörk

1-0 sigur á Frakklandi (26. mars 2013) - 1 mark




Fleiri fréttir

Sjá meira


×