Fótbolti

Mourinho: Ronaldo getur gert eins og Giggs og Scholes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo Mynd/NordicPhotos/Getty
Paul Scholes og Ryan Giggs eru enn að spila með liði Manchester United þrátt fyrir að vera að nálgast báðir fimmtugsaldurinn. Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, sér bara eitt standa í vegi fyrir því hvort Cristiano Ronaldo verði eins lengi í boltanum og þeir tveir.

Cristiano Ronaldo er 28 ára gamall en Ryan Giggs verður í fertugur í nóvember og Paul Scholes heldur þá upp á 39 ára afmælið sitt. Ronaldo hefur leikið 500 alvöru leiki á ferlinum en langt frá því að ná Giggs sem lék sinn þúsundasta leik á dögunum.

„Ég er viss um að Cris getur spilað eins lengi og Giggs og Scholes en spurningin er bara um það hvort hann vilji það. Giggs og Scholes geta báðir spilað ennþá en það sem er mikilvægast er að þeir vilja ennþá spila. Ég vona fótboltans vegna að Cris vilji spila jafnlengi," sagði Jose Mourinho við The Sun.

„Það var mikilvægt að vinna leikinn á Old Trafford og við vitum núna að við getum farið alla leið og unnið Meistaradeildina. Ég veit samt líka að við getum allt eins fallið út í næstu umferð því það er fullt af flottum liðum í Meistaradeildinni. Ég er því alveg rólegur," sagði Mourinho.

Það verður dregið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar á morgun og þá kemur í ljós hvaða lið Real Madrid fær í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×