Fótbolti

Glannaakstur Benzema kostaði hann bílprófið og væna sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema.
Karim Benzema. Mynd/Nordic Photos/Getty
Karim Benzema má ekki keyra næstu átta mánuðina eftir að franski framherjinn hjá Real Madrid var dæmdur sekur fyrir glannaakstur. Benzema þarf því annaðhvort að sníkja far eða ráða sér bílstjóra fram á haustið.

Benzema var dæmdur sekur af dómstól í Madrid í morgun en auk þess að missa ökuprófið í átta mánuði þá þarf hann að greiða þrjár milljónir íslenskra króna í sekt.

Benzema fékk að flýta því að málið yrði tekið fyrir því hann verður upptekinn með franska landsliðinu þegar málið átti að fara fyrir dóm sem var 26. mars næstkomandi.

Madridar-löggan mældi Benzema á 215 kílómetra hraða 3. febrúar síðastliðinn þar sem hámarkshraðinn var aðeins 100 kílómetrar.

Karim Benzema er með 14 mörk og 14 stoðsendingar í 36 leikjum í öllum keppnum með Real Madrid á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×