Fótbolti

Xavi missir af El Clásico á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi.
Xavi. Mynd/AFP
Xavi, miðjumaður Barcelona, verður ekki með liðinu á móti Real Madrid á morgun en liðin spila þá seinni deildarleik sinn í vetur aðeins nokkrum dögum eftir að Real Madrid sló Barca út úr spænska Konungsbikarnum.

Xavi er að glíma við nárameiðsli en hann hefur verið að spila í gegnum þessi meiðsli í undanförnum leikjum á móti AC Milan og Real Madrid sem báðir töpuðust. Xavi var ekki líkur sjálfum sér í þessum leikjum og er augljóslega meiddur.

Barcelona hvílir Xavi á morgun til þess að tryggja það líka að hann geti beitt sér á fullu í seinni leiknum á móti AC Milan í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fer fram 12. mars næstkomandi.

Xavi er orðinn 33 ára gamall og komst upp í þriðja sætið með þeim Raúl González og Fernando Hierro þegar hann spilaði sinn 37. El Clásico leik í vikunni en hann vantar nú sex leiki til að jafna met Real-mannsins Manuel Sanchís sem er sá sem hefur spilað flesta leiki á milli Real og Barca.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×