Fótbolti

Ferguson: Megum ekki vera hræddir við Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, þurfti að sjálfsögðu að svara mörgum spurningum um Cristiano Ronaldo, fyrrum leikmann félagsins og núverandi aðalstjörnu Real Madrid. Manchester United mætir Real Madrid á Old Trafford í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum og það er því mikil spenna í loftinu fyrir leik kvöldsins sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Ég hef aðallega áhyggjur af því að hann láti sjá sig," sagði Sir Alex Ferguson í léttum tón aðspurður um mikilvægi Cristiano Ronaldo í leiknum í kvöld.

„Við megum ekki vera hræddir við Cristiano Ronaldo. Ef við förum að velta því of mikið fyrir okkur hvað hann getur gert inn á vellinum þá munum við gleyma því sem við ætlum að gera sjálfir í leiknum," sagði Ferguson.

Ferguson seldi Cristiano Ronaldo til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda árið 2009 og síðan hefur Portúgalinn raðað inn mörkum í búningi Real.

„Við hverju býstu þegar þú mætir liði með Cristiano innanborðs? Auðvitað búast menn við vandræðum í leiknum. Við verðum bara að vinna úr þeim eins vel og við getum. Rafael býr vonandi af reynslu sinni frá því í fyrri hálfleik í fyrri leiknum og hann fær aftur sama hlutverk í þessum leik," sagði Ferguson.

Ferguson var spurður út hinn brasilíska Ronaldo sem kláraði Manchester United þegar liðin voru í sömu stöðu í Meistaradeildinni í apríl 2003. Ronaldo skoraði þá þrennu á Old Trafford og Real komst áfram þrátt fyrir 3-4 tap.

„Sá eldri og feitari var á toppi ferils síns á þeim tíma. Þessi Ronaldo er frábær íþróttamaður. Hann missir aldrei úr leik, ber sig frábærlega, er með mikinn hraða, tvo öfluga fætur og er síðan mjög góður í loftinu. Okkar aðaláhyggjur eru af því sem gerist í kvöld en ekki af því sem gerðist fyrir tíu árum," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×