Fótbolti

Tólf mörk í tveimur leikjum United og Real á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Það má búast við markaveislu á Old Trafford í kvöld ef marka má fyrri tvo Meistaradeildarleiki liðanna á vellinum en Manchester United og Real Madrid mættust þar í átta liða úrslitum 2000 og 2003.

Real Madrid mætir Manchester United á Old Trafford í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum og það er því mikil spenna í loftinu fyrir leik kvöldsins sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Manchester United vann 4-3 sigur á Real Madrid í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum 2003. David Beckham skoraði tvö mörk fyrir United, Ruud Van Nistelrooy gerði eitt og það fjórða var sjálfsmark. Brasilíumaðurinn Ronaldo skoraði öll mörk Real-liðsins en hann kom liðinu þrisvar yfir í leiknum.

Real Madrid vann 3-2 sigur á United þegar liðin mættust á Old Trafford á sama tímapunkti þremur árum fyrr. Raul Gonzalez skoraði tvö mörk fyrir Real og það þriðja var sjálfsmark Roy Keane. David Beckham og Paul Scholes skoruðu fyrir Manchester United.

Real Madrid komst áfram í bæði skiptin, 6-5 samanlagt 2003 og 3-2 samanlagt árið 2000.

Síðasti sigur Manchester United á Real Madrid á Old Trafford kom í gömlu Evrópukeppni Meistaraliða 24. apríl 1968 og þá var það George Best sem skoraði eina mark leiksins. Það var fyrri leikur liðanna í undanúrslitum og United fór áfram eftir 3-3 jafntefli í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×