Fótbolti

Ferguson læsti klefanum og hleypti engum í viðtöl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur líklega sjaldan verið jafnreiður og eftir tapið á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í gær. United-liðið missti þá mann af velli með umdeilt rautt spjald þegar liðið var með góð tök á leiknum og Real nýtti tækifærið og snéri leiknum sér í hag.

Manchester United var 1-0 yfir og á leiðinni í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þegar Nani fékk rautt spjald þegar flest allir eru sammála um að gult spjald hefði verið næg refsing. Luka Modric og Cristiano Ronaldo tryggðu síðan Real Madrid 2-1 sigur og sæti í næstu umferð.

Ferguson fór ekki í nein viðtöl eftir leik heldur sendi aðstoðarmann sinn Mike Phelan fram til að tala við blaðamenn. Sir Alex læsti síðan búningsklefa Manchester United og hleypti engum inn eða út. Það voru því engin viðtöl við leikmenn liðsins í erlendum fjölmiðlum.

Jan Aage Fjørtoft, hjá Viasat-sjónvarpsstöðinni, sagði frá því að áður en Ferguson fór inn í klefa þá heimtaði hann að tyrkneski dómarinn Cüneyt Cakirs þyrfti að svara fyrir sína ákvörðun hjá UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×