Enski boltinn

Barcelona á Agger-veiðum á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Agger.
Daniel Agger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Umræðan um Daniel Agger og Barcelona er ekki dauð úr öllum æðum þrátt fyrir að danski miðvörðurinn hafi framlengt samning sinn við Liverpool. Agger var orðaður við spænska stórliðið í sumar og nú eru ensku slúðurblöðin The Sun og Daily Mirror farin að skrifa um málið á ný.

Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, er á lokasprettinum á sínum ferli og Javier Macherano hefur talað um það í fjölmiðlum að hann óski þess að hans gamli liðsfélagi í Liverpool komi til hans á Nou Camp.

Thomas Vermaelen hjá Arsenal hefur einnig verið orðaður við Barcelona í ensku slúðurblöðunum í dag en það virðist vera nokkuð öruggt að Barca ætli að bæta við sig varnarmanni í sumar.

Daniel Agger hefur verið hjá Liverpool síðan 2006 og nýi samningurinn hans rennur ekki út fyrr en sumarið 2016. Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, mun gera allt til að halda sínum manni en sumarið hjá honum gæti hinsvegar farið í að leita sér að miðvörðum.

Jamie Carragher leggur skóna á hilluna, Sebastian Coates er líklega á leiðinni aftur til Suður-Ameríku og þá er óvissa í kringum framtíð Martin Skrtel sem gæti farið aftur til Zenit Skt. Petersburg. Skrtel komst upp á kant við Brendan Rodgers á dögunum. Liverpool má því alls ekki við því að missa Agger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×