Enski boltinn

Fetar Rooney sömu slóð og þeir Beckham og Van Nistelrooy?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stuðningsmannaklúbbur Manchester United í Englandi styður ákvörðun knattspyrnustjórans Sir Alex Ferguson að láta stjörnuleikmanninn Wayne Rooney dúsa á bekknum á móti Real Madrid í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið en Guardian kannaði hljóðið í forystumanni klúbbsins.

„Við stöndum alltaf með Sir Alex Ferguson og treystum hans dómgreind. Ef hann ákveður að láta Rooney fara þá er það líklega réttasta ákvörðunin fyrir klúbbinn. Það er samt flestir sem vilja að Rooney verði hér áfram," sagði Duncan Drasdo stjórnarformaður Manchester United Supporters' Trust.

Framtíð Wayne Rooney hefur verið aðalefni ensku blaðanna en lið eins og Paris Saint-Germain, Real Madrid, Barcelona og Manchester City hafa öll verið orðuð við enska framherjann. Daily Mail segir þó frá því í morgun að Manchester City, Real Madrid eða Barcelona ætli ekki að bjóða enska landsliðsmanninum útgönguleið.

Ritstjóri Red News telur að sagan sé að endurtaka sig á Old Trafford og það ýtir undir það að Wayne Rooney sé á förum frá Manchester United í sumar.

„Það er eins og sagan sé að endurtaka sig. Formið hjá Rooney hefur verið áhyggjuefni og ekki síst sendingarnar. Ég var að vonast eftir meiru frá honum en hann getur samt enn gert gæfumuninn fyrir United," sagði Barney Chilton, ritstjóri Red News fanzine en hann vísaði þá til að Rooney sér að feta sömu slóð og þeir David Beckham og Ruud Van Nistelrooy gerðu á sínum tíma.

Beckham var ekki valinn í liðið hjá United fyrir Meistaradeildarleik á móti Real Madrid 2003 og fór til Real Madrid um sumarið. Van Nistelrooy var ekki valinn í liðið í úrslitaleik enska deildarbikarins 2006 og fór líka til Real Madrid um sumarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×