Fótbolti

Capello: AC Milan þarf heppni til að vinna Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi í leik á móti AC Milan í fyrra.
Lionel Messi í leik á móti AC Milan í fyrra. Mynd/NordicPhotos/Getty
Fabio Capello, núverandi þjálfari rússneska landsliðsins og fyrrum þjálfari AC Milan, var spurður út í leik AC Milan og Barcelona í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fer í Mílanó í kvöld.

„AC Milan þarf á heppni að halda til að vinna Barcelona. Það er of mikill munur á þessum liðum eins og staðan er í dag. Í raun er mikill munur á Barca og öllum öðrum liðum," sagði Fabio Capello við Sky Sport 24.

Fabio Capello tjáði sig líka um Mario Balotelli sem hefur skorað 4 mörk í 3 leikjum síðan að hann kom til AC Milan frá Manchester City en vandræðabarnið er ekki löglegur í Meistaradeildinni og verður því ekki með í kvöld.

„Leikform Balotelli kemur mér mikið á óvart. Hann þurfti á því að halda að finna rétta umhverfið og fara til Ítalíu til að verða mikilvægur leikmaður. Það sem vekur mesta athygli mína er einbeiting hans, hollusta og samvinna hans við liðsfélagana. Ég sá aldrei þessa hlið á honum hjá City eða Inter," sagði Capello.

Leikur AC Milan og Barcelona hefst klukkan 19.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×