Fótbolti

Var Drogba ólöglegur í gær?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Mynd/AFP
Forráðamenn þýska félagsins Schalke 04 íhuga nú að kæra þátttöku Fílabeinsstrendingsins Didier Drogba í 1-1 jafntefli Schalke 04 og Galatasaray í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.

Didier Drogba gekk til liðs við tyrkneska félagið í lok janúar en hann fékk sig þá óvænt lausan frá kínverska félaginu Shanghai Shenhua.

Schalke 04 skrifar um málið inn á twitter-reikning félagsins í dag. „Það er vafi um hvort Drogba hafi verið kominn með fullgilt keppnisleyfi í Meistaradeildinni og Schalke ætlar að skoða málið betur."

Schalke 04 mun væntanlega senda inn kvörtun til UEFA sem mun þá fara yfir hvort allir pappírar í kringum keppnisleyfi Didier Drogba séu í lagi. Ef svo er ekki væri tyrkneska félagið í slæmum málum.

Didier Drogba átti góðan leik með Galatasaray í gær en Þjóðverjarnir náðu að jafna rétt fyrir hálfleik og eru í fínum málum fyrir seinni leikinn í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×