Körfubolti

Óbreytt staða á milli toppliða Keflavíkur og Snæfells

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir.
Pálína Gunnlaugsdóttir. Mynd/Daníel
Keflavík er áfram með fjögurra stiga forskot á Snæfell í baráttunni um deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild kvenna í körfubolta en bæði lið unnu góða heimasigra í leikjum sínum í kvöld.

Keflavík vann 28 stiga sigur á Grindavík, 86-58, en Keflavíkurliðið hafði í leiknum á undan tapað sínum fyrsta leik eftir sigur liðsins í bikarúrslitunum.

Keflavíkurkonur kláruðu leikinn í þriðja leikhluta sem liðið vann 30-11 en staðan var 37-35 fyrir Keflavík í hálfleik. Jessica Jenkins skoraði 15 af 26 stigum sínum í þriðja leikhlutanum. Pálína Gunnlaugsdóttir var með 14 stig og 8 stoðsendingar en Crystal Smith skoraði mest fyrir Grindavík eða 18 stig.

Snæfell vann sextán stiga sigur á Fjölni, 92-76, en Snæfellsliðið var búið að tapa þremur heimaleikjum í röð í deild og bikar.

Fjölnisliðið komst átta stigum yfir í öðrum leikhluta, 33-25, en Snæfellskonur svöruðu þá með 14 stigum í röð og komust í 39-33. Snæfell var síðan 41-35 yfir í hálfleik og komið með níu stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 65-56.

Hildur Sigurðardóttir var með 25 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst fyrir Snæfell, Kieraah Marlow bætti við 26 stigum og 15 fráköstum og Alda leif Jónsdóttir var með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×