Fótbolti

Neville: Ronaldo leggur lélegasta varnarmanninn í einelti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United og liðsfélagi Cristiano Ronaldo, hefur verið að tjá sig við BBC um leik Real Madrid og Manchester United í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Hann talaði að sjálfsögðu mikið um Cristiano Ronaldo sem mun vissulega eiga sviðsljósið í þessum leikjum.

Gary Neville segir að Ronaldo leggi lélegasta varnarmann andstæðinga í einelti í leikjum. Ronaldo mætir nú Manchester United í fyrsta sinn síðan að félagið seldi hann til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda.

„Ronaldo leggur menn í einelti inn á vellinum. Hann þefar alltaf uppi lélegasta varnarmanninn í liði mótherjanna. Hann gerði það á móti Maicon hjá Manchester City. Hann á spila á vinstri vængnum en ef hann kemst ekki í boltann þar þá fer hann, fram eða inn á miðjuna eða út á hægri kantinn," segir Gary Neville.

Þegar Neville var spurður út í það hvernig hann stoppaði Cristiano Ronaldo á æfingum í „gamla" daga þá var svarið stutt og skorinort. „Ég sparkaði hann niður," sagði Neville afdráttarlaust.

Cristiano Ronaldo skoraði 118 mörk í 292 leikjum í öllum keppnum með Manchester United en hefur skorað 182 mörk í 179 leikjum með Real Madrid liðinu þar af 136 mörk í 123 leikjum í spænsku deildinni.

Ronaldo hefur skorað 6 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni á þessu tímabili og var með 10 mörk í 10 leikjum í keppninni í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×