Fótbolti

De Gea fékk mikið hrós frá Ferguson og Giggs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David de Gea.
David de Gea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, var að sjálfsögðu ánægður með frammistöðu spænska markvarðarins David de Gea í 1-1 jafnteflinu á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í gær. David de Gea sá öðrum fremur til þess að Real-menn skoruðu aðeins eitt mark í leiknum.

„David var frábær og átti þrjár eða fjórar heimsklassa markvörslur. Hann er alltaf að bæta sig. Ég er mjög ánægður fyrir hönd stráksins því þetta er mjög erfiður staður til að spila á," sagði Sir Alex Ferguson.

Ryan Giggs talaði einnig um De Gea. „Það er gott fyrir hann að koma til Madrid og spila svona góðan leik. Hann er topp markvörður og það er enginn betri en hann í að verja boltann," sagði Ryan Giggs og bætti við:

„Hann er að þroskast meira og meira og er farinn að sýna það inn á vellinum. Hann kom til Madrid með mikla pressu á sér, ekki síst þar sem hann er frá Atletico en stóðst hana með glæsibrag," sagði Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×