Körfubolti

Sigurður og Sverrir Þór geta báðir unnið annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur, og Sigurður Ingimundarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur, og Sigurður Ingimundarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur. Mynd/Anton
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur, og Sigurður Ingimundarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, geta báðir unnið bikarinn annað árið í röð i dag en þeir eru þeir einu í Laugardalshöllinni í dag sem urðu bikarmeistarar í fyrra.

Báðir eru þeir þó að spila um annan bikar en þeir unnu í fyrra. Sverrir Þór gerði þá kvennalið Njarðvíkur að bikarmeisturum en karlalið Keflavíkur varð bikarmeistari undir stjórn Sigurðar.

Sigurður stýrir Keflavík á móti Val í kvennaleiknum sem hefst klukkan 13.30 en Sverrir Þór stjórnar Grindavíkurliðinu á móti Stjörnunni og hefst sá leikur klukkan 16.00.

Það hefur aðeins einn þjálfari náð að vinna báða bikarana með aðeins eins árs millibili og það er einmitt Sigurður Ingimundarson sjálfur. Hann gerði Keflavíkurstelpurnar að bikarmeisturum 1996 og vann karlabikarinn með Keflavík árið eftir. Stelpuleikurinn fór þó ekki fram í Laugardalshöllinni heldur í Garði.

Einar Bollason gerði reyndar betur því KR vann tvöfalt undir hans stjórn árið 1977. Einar er eini þjálfarinn sem hefur gert bæði karla- og kvennalið að bikarmeisturum á sama ári.

Sigurður hefur gert bæði karla- og kvennalið að bikarmeisturum áður en Sverrir Þór getur komist í hóp þriggja þjálfara sem hefur tekist að vinna bikarmeistaratitilinn með bæði karla- og kvennaliði. Hinir eru auk Sigurðar, Jón Kr. Gíslason og Falur Harðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×