Erlent

Blóðug krikketkylfa á heimili Pistoriusar

MYND/AP
Lögreglan í Suður Afríku fann blóðuga krikketkylfu á heimili hlauparans Oscars Pistoriusar. Pistorius hefur verið í haldi lögreglu frá því á fimmtudag, grunaður um að hafa skotið 29 ára gamla unnustu sína, Reevu Steenkamp, til bana.

Sky-fréttastöðin fjallar meðal annars um málið í dag og hefur eftir suður-afrískum fjölmiðlum að heimildir hermi að höfuðkúpa Steenkamp hafi verið mölbrotin.

Mikið blóð var á kylfunni en lögreglan rannsakar nú hvort Steenkamp hafi notað kylfuna til að verja sig eða hvort henni var misþyrmt með henni.

Steenkamp var skotin fjórum skotum.

Sky segir að svo virðist sem fyrsta skotið hafi hæft hana í mjöðmina. Hún hafi þá leitað skjóls inn á baðherbergi. Pistorius virðist þá hafa skotið þremur skotum í gegnum hurðina sem hæfðu Steenkamp. Saksóknari segir að farið verði fram á lífstíðarfangelsi fyrir morð af yfirlögðu ráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×