Fótbolti

Berlusconi vill setja mann á Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Silvio Berlusconi, forseti AC Milan, segist ekki ætla að skipta sér af liðsuppstillingu síns liðs þegar það mætir Barcelona í Meistaradeildinni á morgun.

„Það verður mjög erfitt að vinna Barcelona," sagði Berlusconi við ítalska fjölmiðla en leikurinn er sá fyrri í 16-liða úrslitarimmu þeirra í Meistaradeild Evrópu.

„Ég hef ekki enn rætt við [Massimiliano] Allegri [stjóra AC Milan] en ég mun ekki skipta mér af því hvaða liði hann stillir upp. Það hef ég aldrei gert," sagði Berlusconi.

„Ég veit hver hlutverk okkar eru og ber virðingu fyrir því. En forsetinn hefur samt rétt á því að bjóða fram ráðleggingar. Í þessu tilviki myndi ég láta einn okkar leikmanna hafa það hlutverk að gæta Messi sérstaklega."

Berlusconi gaf til kynna að Allegri yrði að störfum hjá félaginu út næsta ár, að minnsta kosti. „Þjálfarar eru reknir þegar forsetinn er óssammála þeim. En Allegri er hér enn og er samningsbundinn í eitt ár í viðbót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×